154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[12:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þingmaður kom hérna inn á almannatryggingar og þróun þeirra þar sem ríkisstjórnin hefur vissulega komið inn og passað upp á að almannatryggingar haldist í takt við þróun verðlags. En það er smá vandamál þar, og ég beini því líka til hæstv. fjármálaráðherra sem nefndi þetta í sinni ræðu og í andsvörum áðan, sem er það að hinn hlutinn af lögum um almannatryggingar snýst um launaþróun. Nú er staðan sú, alla vega í júlí á þessu ári, að almannatryggingar eru sem fyrr á eftir í launaþróun, nánar tiltekið á þessu kjörtímabili um 5,54% en á tíma þessarar ríkisstjórnar um 11,82%. Það er alveg gott og blessað að almannatryggingar haldi í við verðlagsþróun. Lögin eru skýr þannig og þó að áður fyrr hafi bara verið áætlað hver verðlagsþróunin var í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár, sem stóðst síðan nánast aldrei, þá hefur alla vega verið gert vel svona nýlega og brugðist við því eftir á ef verðlagsþróunin hefur verið röng. En eftir stendur launaþróunin og bilið sem við erum að horfa upp á núna er einmitt 5,54%, bara á þessu kjörtímabili, 11,82% frá 2018 sem var fyrsta heila ár þessarar ríkisstjórnar. Sér hv. þingmaður fyrir sér að við getum nokkurn tímann uppfyllt þessi skilyrði laga um almannatryggingar, að almannatryggingar fylgi launaþróun?